Veðrið er með besta móti hérna á Snæfellsnesinu í dag.
Sést í topp Snæfellsjökuls, hlýtt og lygnt.
Framundan hjá okkur um helgina er að sjálfsögðu barnastund á Arnarstapa á laugardagsmorgun kl.11, þar sem landverðir hitta börnin við Arnarbæ.
Í barnastundum hitta 6-12 ára börn landverði, rannsaka með þeim náttúruna, hlusta á sögur, fara í leiki og margt fleira skemmtilegt.
Á laugardaginn kl.14 er ganga þar sem farin er Vermannaleiðin en gengið er frá Sandhólum yfir að Djúpalónssandi. Gestir hitta landverði kl. 14 við bílastæðið á Djúpalónssandi þar sem sameinast er í bíla og haldið að bílastæði við Sandhóla. Tekur gangan um 2-3 klst. og gott að taka með sér smá nesti og vatn.
Á sunnudaginn kl.14 er síðan ganga í Frambúðir.
Hist er við kirkjuna á Búðum og er þetta auðveld ganga í gegnum blómaskrúð og hraunmyndanir. Í Frambúðum eru minjar um útgerð fyrri tíma. Gangan tekur um 1-2 klst.
Ekki má gleyma heldur gestastofunni á Hellnum en hún er opin frá 10-18 alla daga í sumar.
Sjáumst um helgina :)