miðvikudagur, júlí 29, 2009

Skátar

Landvörðum í þjóðgarðinum barst liðsauki í seinustu viku þegar vaskur hópur 50 skáta komu til aðstoðar í einn dag.

Meðal verkefna var að mála, stika, hreinsað út úr gömlum skúr, grafin niður vatnslögn og tínt rusl úr fjörunni.

Frábært að fá góða aðstoð.

Hluti af hópnum á Malarrifi ásamt landvörðum.

föstudagur, júlí 10, 2009

Ruslatínsla

Það var hress hópur ungmenna úr Vinnuskóla Snæfellsbæjar sem tók til hendinni í fjörunni við Malarrif í gær. Krakkarnir komu í einn dag í vinnu fyrir þjóðgarðinn við að tína rusl úr fjörunni og nágrenni.
Ruslið var flokkað í það sem var endurvinnanlegt og ekki. Aðeins tókst að hreinsa hluta strandarinnar þar sem ruslið reyndist það mikið en ströndin leit ólíkt betur út eftir tiltektina.

Í heild tíndi hópurinn 260 kg af rusli.

Myndin er tekin í hádegispásu þegar boðið var upp á grillaðar pilsur.

föstudagur, júlí 03, 2009

Framundan

Veðrið er með besta móti hérna á Snæfellsnesinu í dag.

Sést í topp Snæfellsjökuls, hlýtt og lygnt.

Framundan hjá okkur um helgina er að sjálfsögðu barnastund á Arnarstapa á laugardagsmorgun kl.11, þar sem landverðir hitta börnin við Arnarbæ.

Í barnastundum hitta 6-12 ára börn landverði, rannsaka með þeim náttúruna, hlusta á sögur, fara í leiki og margt fleira skemmtilegt.

Á laugardaginn kl.14 er ganga þar sem farin er Vermannaleiðin en gengið er frá Sandhólum yfir að Djúpalónssandi. Gestir hitta landverði kl. 14 við bílastæðið á Djúpalónssandi þar sem sameinast er í bíla og haldið að bílastæði við Sandhóla. Tekur gangan um 2-3 klst. og gott að taka með sér smá nesti og vatn.

Á sunnudaginn kl.14 er síðan ganga í Frambúðir.
Hist er við kirkjuna á Búðum og er þetta auðveld ganga í gegnum blómaskrúð og hraunmyndanir. Í Frambúðum eru minjar um útgerð fyrri tíma. Gangan tekur um 1-2 klst.

Ekki má gleyma heldur gestastofunni á Hellnum en hún er opin frá 10-18 alla daga í sumar.

Sjáumst um helgina :)

fimmtudagur, júlí 02, 2009

Fyrsti póstur

Hugmynd um að koma á framfæri fréttum úr þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

Hvað er á döfinni á næstunni ásamt ýmsu öðru.