miðvikudagur, september 09, 2009

Fuglarannsókn í þjóðgarðinum













Í sumar hefur Hákon Ásgeirsson einn af landvörðum þjóðgarðsins unnið að Bs verkefni sínu frá Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Þjóðgarðinn og Háskólaseturs Snæfellsness. Verkefnið fellst í rannsókn á ritu Rissa tridactyla, sem er algengasti bjargfuglinn í Þjóðgarðinum. Ætlunin er að reyna að komast að því hvað veldur viðkomubresti hjá ritu. Undanfarin ár hefur varp að miklu leiti misfarist hjá ritunni og er það talið stafa af fæðuskorti í sjónum umhverfis ströndina. Fylgst var með afkomu rituunga í 3 fuglabjörgum, á Arnastapa, Skálasnaga og í Keflavíkurbjargi. Vöktuð voru 40 hreiður á hverjum stað með því að farið var einu sinni í viku á tímabilinu 23 júní – 17 ágúst og ungarnir taldir í hreiðrunum. Varpið fór vel af stað, en um mitt sumar fór að bera á ungadauða á Arnastapa. Á Skálasnaga varð algjör viðkomubrestur og kom ritan engum unga á legg þar. En í Keflavíkurbjargi gekk varpið nokkuð vel og komust meiri hluti unganna þar á legg.

Einnig var fæða ritunnar skoðuð, það var gert með því að veiða fullorðna ritu með svo til gerðri stöng með lykkju á endanum sem var krækt utan um fuglinn og hann svo hífður upp á brúnina úr bjarginu. Þegar búið var að ná fuglinum var hann látin æla upp fæðunni sem ritan geymir í svokölluðum sarpi sem er staðsett í hálsinum. En þar er fæðan geymd þar til fuglinn ákveður að gefa unganum að borða. Með aðstoð annarra landvarða þjóðgarðsins gekk þetta mjög vel. Svo verður farið með þessi fæðusýni á rannsóknarstofu og þau greind.

Hvað veldur því að það sé svona mikill viðkomubrestur á Arnastapa og á Skálasnaga miðað við í Keflavíkurbjargi er hulin ráðgáta. En með áframhaldandi rannsóknum er vonast til að hægt verði að komast að því. Niðurstöður þessarar rannsóknar er að vænta í maí 2010 og verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.